sunnudagur, mars 03, 2013

3. mars 2013 - Að skjóta sig í fótinn.


Það hefur löngum þótt lélegt veiðibragð að skjóta sjálfan sig í fótinn. Þetta fékk einn skólafélagi minn að reyna er við vorum bekkjarfélagar í Vélskólanum og hann hélt til rjúpnaveiða. Hann gekk um óbyggðir í marga klukkutíma án árangurs þar sem rjúpurnar földu sig fyrir íturvaxinni hetjunni og kom loks til baka að bílnum, en um leið og hann ætlaði setjast inn í bílinn með hlaðna byssuna enn í höndunum, hljóp skot úr byssunni og tók af honum aðra stórutána. Skepnurnar sem voru með honum í bekk í Vélskólanum sáu alveg grínið í þessu slysi og hann var kallaður Tánus 9M eftir þetta eftir vinsælu þýsku bílategundinni Taunus 10M.


Ég er reið. Kortéri fyrir kosningar lætur formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins (Samfylkingin er stærsti stjórnmálaflokkur landsins miðað við kjörna alþingismenn) út úr sér að það sé í lagi að hætta að þrýsta á um nýja stjórnarskrá af því að það er svo stutt til kosninga. Þó eru nærri tveir mánuðir til alþingiskosninga 2013. Þessi orð formannsins verða til þess að ég velti fyrir mér hvort það sé í lagi að greiða flokknum atkvæði mitt?

Það á að greiða stjórnarskrárfrumvarpinu allan þann stuðning sem það getur fengið. Látum á það reyna hvort Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur séu reiðubúnir að standa fyrir málþófi á síðustu dögum þingsins. Hverjum verður það til minnkunar? Örugglega ekki Samfylkingunni. Hinsvegar mun það verða Samfylkingunni til minnkunnar að gefast upp án átaka á þessum síðustu dögum þingsins. Þjóðin vill nýja stjórnarskrá hvort sem Árna Páli og félögum hans í Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk líkar betur eða verr. Við Evrópu- og mannréttindasinnar vildum fá samning um Evrópusambandsaðild á kjörtímabilinu. Við fengum það ekki. Við sósíalistar vildum fá ný lög um stjórn fiskveiða þar sem auðlindin í hafinu er hluti af þjóðarauðnum, en það er að renna úr höndunum á okkur. Nú á að gefa eftir stjórnarskrána í þjónkun við íhaldið.

Það var margt gott gert á kjörtímabilinu. Við fengum lög um réttarstöðu transfólks sem eru til fyrirmyndar þótt bæta megi atriðum í þau, lög sem gefa samkynhneigðum jafnrétti á við annað fólk og ríkisstjórninni tókst að draga þjóðina upp úr þjóðargjaldþroti eftir hrunstjórnir Sjálfstæðis og Framsóknar. Það gekk þó ekki átakalaust og við þurfum að horfast í augu við að fórnir okkar við að rétta af þjóðarhag ætla að verða okkur dýrkeypt.

Þegar sjálfur formaður Samfylkingarinnar ákveður að skjóta sig í fótinn með heimskulegum ummælum um stjórnarskrárfrumvarpið í stað þess að berjast fyrir framgangi þess fram á síðustu stundu er ég ekki lengur með í liðinu.

Ég verð þó áfram meðlimur í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík á meðan ég verð ekki rekin þaðan, annað en fölsku atkvæðin til Árna í formannsslagnum  og mun greiða mín félagsgjöld til að staðfesta jafnaðarhugsjónina, en hvort ég sé reiðubúin að lýsa yfir stuðningi við Samfylkinguna í kosningunum í vor er annað mál. Atkvæði mitt fer allavega ekki til pópúlista eða hægrimanna!

P.s. Umræddur Tánus 9M er af Akranesi eins og ónefndur formannsframbjóðandi sem hlaut ekki nægilegt fylgi.

5 ummæli:

  1. Hönskunum er kastað. Árni Páll skal taka ábyrgð á þessu og Samfylkingin með.

    SvaraEyða
  2. Já, þú ert farin að blogga ágætilega, gæzkan !

    SvaraEyða
  3. Elín Finnbogadóttir03 mars, 2013

    sammála þessu, vel mælt :-)

    SvaraEyða
  4. Þú ert ekki ein um að vera reið. Uppgjöf í máli þegar um er að ræða sjálft lýðræðið er aldrei ásættanleg. Ég var mjög ánægð mað Gísla Tryggvason í Silfri Egils áðan. Hann sýndi glæsilega fram á að það er bara bull að kalla þessa ákvörðun Árna Páls raunsæi. Hvað varðar val manns í kosningum í vor er staðið frammi fyrir miklum vanda. Ekki veit ég það og er þó í tveimur flokkum.

    SvaraEyða
  5. Ég er í Samfylkingunni í Kópavogi, og ég get ekki verið meira sammála.

    Kveðja
    Guðmundur Örn

    SvaraEyða